Prófessorsstaða Nansen í norðurslóðafræðum við HA

Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs undirrituðu viljayfirlýsingu í september 2011 um rannsóknasamstarf á sviði norðurslóðafræða. Þar er kveðið á um gestaprófessorsstöðu í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri sem kennd væri við norska heimskautafræðinginn Fridtjof Nansen.

Laus er til umsóknar staða gestaprófessors í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri. Staðan er veitt til eins árs í senn framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum.

Umsóknarfrestur er til 15. ágúst 2012 og gert er ráð fyrir að ráðningartímabil hefjist 1. október 2012 eða samkvæmt nánara samkomulagi.

Úthlutun úr Háskólasjóði KEA

Hannes Karlsson, stjórnarformaður KEA og forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhentu í dag styrki úr Háskólasjóði KEA við athöfn sem fram fór á Sólborg, húsnæði Háskólans á Akureyri við Norðurslóð, en skólinn fagnar 25 ára afmæli sínu á árinu. Að þessu sinni voru veittir tíu rannsóknarstyrkir en nítján umsóknir bárust sjóðnum. Við úthlutun úr sjóðnum er horft til þess að verkefnin tengist starfsemi skólans. Einnig hlutu þrír nemar viðurkenningu fyrir góðan námsárangur við brautskráningu fyrr um daginn. Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er úr Háskólasjóði KEA og var heildarupphæð styrkja 3,7 mkr.

46 verkefni hlutu styrk úr Sprotasjóði 2012

Úthlutað hefur verið úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir skólaárið 2012-2013. Alls bárust 190 umsóknir til sjóðsins og fengu 46 verkefni styrk að upphæð 43. millj. kr.

KITCASP: Nýtt rannsóknarverkefni á vegum ESPON

KITCASP: Key Indicators for Territorial Cohesion and Spatial Planning er nýtt rannsóknarverkefni sem RHA tekur þátt í ásamt aðilum frá fjórum evrópskum háskólum. Verður þetta verkefni unnið á árunum 2012-2013.

Ráðstefna um ESPON byggðarannsóknir

Þann 12. október síðastliðinn stóð Byggðastofnun fyrir ráðstefnu um ESPON-byggðarannsóknir en aðilar að þeim eru ESB og EFTA löndin. Ísland hóf þó þátttöku sína síðar en önnur EFTA lönd eða í upphafi árs 2008. RHA er sú íslenska rannsóknastofnun sem hefur mesta reynslu af þátttöku í slíkum rannsóknum og má þar nefna þátttöku okkar í Territorial Impacts of European Fisheries Policy, SeGI og NORBA. Hjalti Jóhannesson var meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni og sagði hann frá reynslu RHA af þátttöku í þessu rannsóknastarfi. Sjá nánar um ráðstefnuna og erindi sem þar voru flutt á heimasíðu Byggðastofnunar.

Nýtt verkefni um stöðu umhverfismála

RHA hefur tekið að sér verkefni sem varðar mat á stöðu umhverfismála á svæðinu við Krossanes á Akureyri. Miðað er við að lýsa stöðu umhverfismála um það leyti sem Becromal verksmiðjan er að hefja starfsemi sína á svæðinu og á fyrstu rekstrar­árum hennar eða tímabilið 2009-2012.

Umsóknir í Sprotasjóð 2012-2013

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Sprotasjóð á vefslóðinni http://www.sprotasjodur.is/  
Hægt er að sækja um í sjóðinn frá 1.- 29. febrúar.

Forstöðumannaskipti á RHA

Hjalti Jóhannesson tekur nú um áramótin við starfi forstöðumanns RHA í fjarveru Guðrúnar Rósu Þórsteinsdóttur. Var henni veitt launalaust leyfi frá störfum á árinu 2012 og mun á þeim tíma verða búsett á Nýja Sjálandi. Embla Eir Oddsdóttir mun hins vegar taka við verkefnum Guðrúnar á vettvangi Northern Research Forum.

Megaproject planning in the Circumpolar North

RHA var ásamt rannsóknastofnuninni Ecologic í Berlín að ljúka verkefni um stórframkvæmdir (e. megaprojects) á norðurslóðum "Megaproject planning in the Circumpolar North - broadening the horizon, gaining insight, empowering local stakeholders". Gerður var samanburður á nokkrum þáttum tveggja slíkra framkvæmda. Annars vegar var um að ræða stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi sem RHA hefur rannsakað á undanförnum árum og hins vegar vinnslu á olíusöndunum í Alberta, Kanada. Verkefnið var styrkt af sjóð Norrænu ráðherranefndarinnar "Arctic Cooperation Fund". Heimasíða verkefnisins er vistuð hjá Arctic Portal á Akureyri og þar er einnig að finna lokaskýrslu verkefnisins, samantektarskýrslu á ensku um samfélagsáhrif stórframkvæmdanna á Austurlandi og fleira.

Samfélagshlutverk háskóla

Í gær var send út netkönnun til akademískra starfsmanna háskólanna og sérfræðinga við rannsóknir. Könnunin er liður í rannsókn á samfélagslegu hlutverki háskóla sem er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands en í kjölfar auglýsingar samþykkti Rannsóknarstofa um háskóla að fela Rannsókna- og þróunarmiðstöð HA og Miðstöð skóla­þróunar HA að annast rannsóknina. Myndað var rannsóknarteymi sjö manns og áhersla lögð á að bakgrunnur þátt­takenda væri sem fjölbreyttastur.