Evrópuverkefninu - Tea for two - lokið

Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri hefur lokið vinnu við Evrópuverkefnið Tea for two. Verkefnið hafði það að markmiði að hanna matstæki til að mæla stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum.

REKENE - Samnorrænt verkefni um hlutverk þekkingar og menntunar í byggðaþróun

REKENE er samnorrænt rannsóknar- og þróunarverkefni sem byggir á þeirri sýn að áherslur í efnahagsþróun innan ESB og Evrópska efnahagssvæðisins skuli byggja öðru fremur á sviðum þar sem menntunar og þekkingar er krafist og að ný og betri störf skapist á þeim grundvelli. Rannsóknir hafa bent til þess að í vestrænum ríkjum þar sem tekjur eru þegar komnar á hátt stig er frekar efnahagslegra framfara einkum að vænta við frekari nýtingu þekkingar.

Íslenska dæmið í þessari rannsókn er Akureyrarsvæðið. AFE er íslenski aðilinn að verkefninu og mun Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri sjá um rannsóknarhlutann í samvinnu við AFE.

Viðtal um samfélagsbreytingar á Austurlandi

Samfélagsbreytingar á Austurlandi vegna álvers- og virkjanaframkvæmda er vinsælt fréttaefni. Dæmi um slíkt er viðtal við Hjalta Jóhannesson, sérfræðing hjá RHA sem er núverandi verkefnisstjóri rannsóknar á þessum samfélagsbreytingum sem RHA hefur umsjón með. Viðtalið birtist í Fjarðaálsfréttum sem dreift er í öll hús á Austurlandi.

Fjórar rannsóknaskýrslur sem komið hafa út í verkefninu eru aðgengilegar hér á vefnum, sjá útgefnar rannsóknaskýrslur hér.

Staða karla og kvenna á lögbýlum á Íslandi

Út er komin skýrslan ,,Staða karla og kvenna á lögbýlum á Íslandi”.  Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um starfs- og félagslegar aðstæður karla og kvenna búsettum á lögbýlum á Íslandi með það að leiðarljósi hvort tilefni sé til þess og þörf sé á að styrkja sérstaklega stöðu þeirra á ákveðnum svæðum á Íslandi.

Svínavatnsleið - mat á samfélagsáhrifum

Út er komin skýrslan „Svínavatnsleið – mat á samfélagsáhrifum“ sem fjórir sérfræðingar á vegum RHA unnu fyrir fyrirtækið Leið ehf. 

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir nýr forstöðumaður RHA

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður RHA - Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og mun taka við af Jóni Inga Benediktssyni, fráfarandi forstöðumanni, á næstu dögum. Guðrún Rósa er með doktorsgráðu frá Göteborgs Universitet og hefur starfað hjá RHA frá árinu 2006. Þar hefur hún m.a. stýrt rannsóknasviði HA, unnið að rannsóknum og úttektum á sviði fjarnáms hérlendis og erlendis og verið framkvæmdastjóri á skrifstofu Rannsóknarþings norðursins.

 


North Hunt, Sustainable Hunting Tourism - business opportunity

RHA, FMSÍ og UST hafa fengið styrk frá Evrópusambandinu vegna þátttöku í verkefni sem er hluti af nýrri Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Heildarfjárhæð verkefnisins er 25,3 milljónir sem skiptist niður á þrjú ár.  Fékkst styrkur frá Evrópusambandinu fyrir 50% af heildarfjárhæðinni. Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans Akureyri er yfirumsjónaraðili yfir verkefninu sem ber nafnið ”North Hunt, Sustainable Hunting Tourism - business opportunity” og er samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Skotlands og Kanada (Labrador og Nýfundnaland). Markmið verkefnisins er að styðja við þróun sjálfbærra veiða til eflingar atvinnulífs og búsetu með áherslu á veiðimenningu. Áhersla er á miðlun reynslu og þekkingar á milli þátttakenda og kanna möguleika á sameiginlegri markaðssetningu vörumerkis ”Northern brand” fyrir sjálfbærar veiðar. Að verkefninu koma einnig Ferðamálasetur íslands, Veiðistjórnarsvið Umhverfisstofnunar og fleiri.


Ísland tekur þátt  nýrri Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2007-2013. (Northern Periphery Programme - NPP). Þátttökulöndin auk Íslands eru Finnland, Svíþjóð, Skotland, Norður Írland, Írland, Noregur,Grænland og Færeyjar. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að bættu atvinnu- og  efnahagslífi auk eflingar búsetuþátta með fjölþjóða samstarfsverkefnum á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Áhersla er m.a. lögð á að koma í veg fyrir að landamæri þjóðríkja séu hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs. Verkefnin innan NPP skapa mikilvæg tengsl og þekkingu sem byggja á alþjóðlegri samvinnu og framtaki. Nánari upplýsingar er að finna hér.