Guðrún Rósa
Þórsteinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður RHA - Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á
Akureyri og mun taka við af Jóni Inga Benediktssyni, fráfarandi forstöðumanni, á næstu dögum. Guðrún Rósa er með
doktorsgráðu frá Göteborgs Universitet og hefur starfað hjá RHA frá árinu 2006. Þar hefur hún m.a. stýrt rannsóknasviði
HA, unnið að rannsóknum og úttektum á sviði fjarnáms hérlendis og erlendis og verið framkvæmdastjóri á skrifstofu
Rannsóknarþings norðursins.
RHA, FMSÍ og UST hafa fengið styrk frá Evrópusambandinu vegna þátttöku í verkefni sem er hluti af nýrri Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. Heildarfjárhæð verkefnisins er 25,3 milljónir sem skiptist niður á þrjú ár. Fékkst styrkur frá Evrópusambandinu fyrir 50% af heildarfjárhæðinni. Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans Akureyri er yfirumsjónaraðili yfir verkefninu sem ber nafnið ”North Hunt, Sustainable Hunting Tourism - business opportunity” og er samstarfsverkefni Íslands, Finnlands, Skotlands og Kanada (Labrador og Nýfundnaland). Markmið verkefnisins er að styðja við þróun sjálfbærra veiða til eflingar atvinnulífs og búsetu með áherslu á veiðimenningu. Áhersla er á miðlun reynslu og þekkingar á milli þátttakenda og kanna möguleika á sameiginlegri markaðssetningu vörumerkis ”Northern brand” fyrir sjálfbærar veiðar. Að verkefninu koma einnig Ferðamálasetur íslands, Veiðistjórnarsvið Umhverfisstofnunar og fleiri.
Ísland tekur þátt nýrri Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2007-2013. (Northern Periphery Programme -
NPP). Þátttökulöndin auk Íslands eru Finnland, Svíþjóð, Skotland, Norður Írland, Írland, Noregur,Grænland og
Færeyjar. Meginmarkmið áætlunarinnar er að stuðla að bættu atvinnu- og efnahagslífi auk eflingar búsetuþátta með
fjölþjóða samstarfsverkefnum á milli einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Áhersla er m.a. lögð á að koma í veg fyrir að
landamæri þjóðríkja séu hindrun í samstarfi og framþróun byggða og atvinnulífs. Verkefnin innan NPP skapa mikilvæg tengsl og
þekkingu sem byggja á alþjóðlegri samvinnu og framtaki. Nánari upplýsingar er að finna hér.

Ráðstefna um stöðu og framtíð líftækni á Íslandi á vegum Viðskipta- og raunvísindadeildar Háskólans
á Akureyri verður haldin föstudaginn 16. nóvember nk. Ráðstefnan fer fram í húsnæði Háskólans á Borgum
v/Norðurslóð.
Markmið fundarins er að fá fram upplýsingar um stöðu líftækni á Íslandi með því að kynna starfsemi fyrirtækja og
háskóla á þessu sviði og fá fram upplýsingar um störf, stefnu og þörf fyrir þekkingu og starfsfólk á næstu
árum. HA mun kynna kennslu og rannsóknir sínar og vonast til að fá umræður og viðbrögð („feedback”) frá
þátttakendum varðandi áherslur og stefnu sem HA ætti að hafa á leiðarljósi næstu árin varðandi frekari uppbyggingu á
kennslu og rannsóknum á sviði líftækni.
Ráðstefnan opin öllum sem áhuga hafa. Skráning á fundinn fer fram hjá Láru Guðmundsdóttur á netfangið laragudmunds@unak.is. Athugið að lokadagur skráningar er mánudaginn 12. nóvember n.k. og að ókeypis aðgangur er á ráðstefnuna. Dagskrá ráðstefnu má finna hér.
Rannsóknasjóður Háskólans á Akureyri auglýsir hér með eftir umsóknum.
Umsóknareyðublað og reglur sjóðsins er að finna á heimasíðu RHA hér.
Umsækjendur athugi að hafi þeir sótt um styrk í sjóðinn áður og fengið úthlutað þá þarf framvindu- eða lokaskýrsla að liggja fyrir hjá sjóðstjórn áður en hægt er að afgreiða nýja umsókn.
Umsóknir þurfa að berast til RHA – Rannsóknasvið, Borgum v/Norðurslóð fyrir kl. 12 mánudaginn 3. des. n.k. Séu umsóknargögn póstlögð þarf póststimpillinn að vera eigi síðar en 3. des.
Stjórn sjóðsins vill vekja athygli á því að síðustu ár hefur borið á því að umsóknir hafa ekki verið nægilega vel unnar og því skal athygli vakin á því að Rannsóknaþjónusta RHA veitir aðstoð við gerð umsókna samkvæmt samningi við yfirstjórn Háskólans og er því umsækjendum bent á að hægt er að leita aðstoðar hjá Rannsóknaþjónustunni.
F.h. Rannsóknasjóðs HA
Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir
gudrunth@unak.is